mánudagur, 13. febrúar 2017

Hnúkurinn 20.5.

Hvannadalshnúkur (2110 m) 

-- -- --

Hnúkurinn var fyrst klifinn 1899 og var þá farin Sandfellsleið, en hún er ein margra leiða á Hnúkinn, og jafnframt sú aðgengilegasta. Venjulegur Hnúksdagur er 12 klst fram og til baka, en getur verið styttri ef færið er gott og sömuleiðis lengist í ferðinni í þungu færi. 

Jæja. Ferðin hefst við bílastæðið á eyðibýlinu Sandfelli og skiptist uppgangan í þrjá 3 klst. áfanga.  Í fyrsta áfanga er gengið á Sandfellsheiði, upp í jökulrönd í 1100 m hæð um skriður og mela. Í öðrum áfanga hefst jöklagangan sjálf og gengið upp í 1800 m hæð. Í þriðja og síðasta áfanga er gengið upp að rótum sjálfs Hnúksins og hann klifinn. Niðurferðin tekur um 4-5 klst.

Hnúksganga útheimtir fjallabúnað s.s. klifurbelti, ísöxi og brodda, en ekki er gerð krafa um að þátttakendur kunni á búnaðinn því gott svigrúm gefst til að kenna á hann eftir því sem göngunni vindur fram. Þátttakendur hnýta sig saman í öryggislínu til varnar jökulsprungum og verður farið yfir þau mál, sem og önnur öryggisatriði. Vert er að hafa í huga að fólk má aldrei losa sig úr línu án vitundar fararstjóra.

Jæja. Gönguhraða verður í hóf stillt. Þar sem um er að ræða hópferð, þá þarf að gera nokkrar málamiðlanir varðandi það ef einhver þarf að snúa við vegna þreytu eða veikinda, sem alltaf getur gerst. Reglan er sú að eftir að hópurinn  hefur bundið sig saman í línu, fara allir niður ef einn þarf þess. Enginn fær að ganga einn síns liðs um sprungusvæði. Hinsvegar getur hver og einn snúið við snemma á fyrsta áfanga án þess að draga hina með sér. Það er því mikilvægt að hver og einn fylgist með heilsu og líðan sinni á fyrsta áfanga og snúi við í tæka tíð ef honum finnst eitthvað vera í ólagi. Sömuleiðis þurfa allir að vera meðvitaðir um að ófyrirséð atvik geta orðið með þeim afleiðingum að allir þurfa að snúa við - og sýna því skilning. Þetta eru hinsvegar aðstæður sem sárasjaldan koma upp. 
Almennt má segja að lykillinn að velheppnaðri Hnúksgöngu sé að ganga hægt og næra sig jafnt og þétt alla leiðina. 

Og þá að búnaði:


-undirföt (innsta lag). Ullar- eða gerviefnablöndur
-flíspeysa eða lopapeysa
-aukapeysa eða dúnjakki
-innri og ytri sokkar
-tvær húfur. Gott ef önnur er lambúshetta
-2 pör vettlingar/hanskar, helst vatnsheldir.
-Stakkur og buxur:  vatns- og vindheld
-göngubuxur
-gönguskór
-sterk sólgleraugu
-sólvörn (UHF vörn nr. 50) og varasalvi UHF 30+.
-nesti (flatökupakki + álegg, kexpakki og vel af nasli í vasa dugar flestum). Sviðasultu eða ölpylsu er líka sniðugt að taka með.
-drykkir - heitt/kalt - samtals 2,5 l. (Hægt að taka vatn á fyrri hl. leiðarinnar)
-bakpoki með mittisól 40-60 l.
-jöklabelti og læst karabína
-göngustafir (valkvætt)
-skíðagleraugu
-legghlífar
-broddar og ísöxi



Aukahlutir ef fólki finnst bakpokinn enn of léttur:

Compede hælsæraplástrar, gps, sími, myndavél, klósettpappír. aukareim í skó.
Ef einhver dettur í sprungu eiga hinir að leggjast á jörðina og halda línunni. Bíða fyrirmæla frá línustjóra sem stjórnar björgun.

-Ferðin er skemmtiferð þótt verkefnið sé krefjandi - og allir eiga skilið að njóta dagsins. Ekki er öruggt hvort hægt verði að toppa. Aðalatriði er að koma heil heim úr öllum fjallgöngum.

-Ekki verður lagt í fjallgöngu í slæmri veðurspá.